AÐ TAKA ÁBYRGÐ Á EIGIN GJÖRÐUM

Eftirfarandi grein birtist 11. jan 2008 á vef Ögmundar Jónassonar.

 

Almenna reglan er að menn taki ábyrgð á eigin ákvörðunum. Á þessu er þó ein stór undantekning. Það er þegar auðvaldið á í hlut. Ekkert síður á Íslandi en annars staðar er það lunkið við að skjóta sér undan ábyrgð.
Á undanförnum árum hefur orðið góðærisprenging, að því okkur sagt er, með æðislegum hagvexti og stórfelldri eignaaukningu; eignir hafi aukist umfram eyðslu. Hversu nákvæma skoðun skyldi þetta þola? Hvernig hafa til að mynda eignirnar orðið til, með aukinni framleiðslu til frambúðar,  meiri útflutningi og meiri tekjum til þjóðarbúsins? Því miður held ég að svo sé ekki.
Skoðum hina opinberu skýringu á hagvexti undangenginna ára, þ.e. að stóriðjuframkvæmdir og svo útrás banka og stórfyrirtækja hafi leitt til hagsældar.
Hefur stóriðjan á Íslandi skilað auknum tekjum? Hvað sem síðar gerist þá er eitt víst, að stóriðjuævintýrið er til þessa ekki eitt af þessum ævintýrum sem fara vel því stóriðjan hefur leitt til stóraukinnar skuldsetningar þjóðarinnar og geigvænlegs viðskiptahalla ár eftir ár! Þegar fram líða stundir og Kárahnjúkapakkinn verður gerður upp í heild sinni eru talsverðar líkur á hann skili þjóðarbúinu tapi en ekki gróða. Við Kárahnjúka er enn verið að bora og fram hefur komið að virkjunin er dýrari en gert var ráð fyrir, þannig að peningarnir sem koma inn fyrir virkjunarframkvæmdina fara í að greiða niður skuldir en afganginn borgum við orkunotendur.
Tökum byggingariðnaðinn, þar hefur verið umtalsverð þensla. Þá þenslu má "þakka" bönkunum og ríkistjórninni. Hækkun lánshlutfals fór öll í hækkun íbúðaverðs, sem færðu  byggingaverktökum og bönkum milljónir á milljónir ofan á silfurfati. Það voru sem sé búin til veð, þannig að bankar gætu lánað meira. Eftir stendur að sjaldan hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að eignast íbúð. Krafa um verkamannabústaði gerast háværari.
Ekki treysti ég mér til að greina útrásina, en þegar lítill steinn er tekinn úr fjallshlíð, getur skriða fallið úr hlíðinni.  Bankar og braskarar hafa leikið þann leik að lána í hlutabréfakaup með veði í væntalegu hlutabréfi, samanber lán varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins. Síðan falla bréfin og lántakendur eru í djúpum skít, reyndar bankinn líka.
Nú bíða menn þess að auðvaldið kalli á hjálp, vilji meiri ívilnanir og skattalækkanir sér til handa. Eitt kunna hinir ríku nefnilega ekki og það er að taka ábyrgð á sjálfum sér. Þeir eru hins vegar óþreytandi að halda fram mikilvægi þess að launafólk sýni ábyrgð. Slíkt tal magnast jafnan í aðdragana kjarasamninga.
Og einmitt nú eru samningar að hefjast. Veslings hagfræðingarnir sem nú hafa með höndum það hlutverk að vernda herra sína jafnframt því að telja kjarkinn úr verkafólki. Í öðru orðinu reyna þeir að kjafta upp hlutabréfin og í næstu setningu segja þeir að allt sé að fara fjandans til.
En hvað um það, verkafólkið getur ekki endalaust sýnt "ábyrgð", svo auðvaldið geti haldið áfram að vera óábyrgt. Slegið ný heimsmet í kaupum á ofurjeppum og komið fleiri ofurríkum Íslendingum á topp 100 listann yfir ríkustu menn.
Er ekki komið að því að verkafólkið fái kjarabætur? Hvernig væri t.d. að verkafólk fengi að lifa sómasamlegu lífi af 40 stunda vinnuviku? 
Rúnar Sveinbjörnsson 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Rúnar; Þinn maður gleymir alveg að minnast á hlut sinna vinstrigænnu manna í R-listanum, sem léðu samþykki sitt við þeim gjörningi að hækka lóðaverð undir húsnæði margfalt, sem er einn stærsti hlutinn í hækkun á íbúðaverði sem hann kvartar nú undan, Ögmundi væri nær að segja allan sinleikan, og viðurkenna hlut sinn manna, en ekki þykjast vera stykk frí og kenna öðrum um hvernig komið er. Það spilar allt saman og allt telur í svona málum.

Magnús Jónsson, 13.1.2008 kl. 20:16

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég hélt að þessi góða grein væri eftir Rúnar sjálfan- og með því að smella á vef Ögmundar sér maður að svo er.

María Kristjánsdóttir, 14.1.2008 kl. 17:11

3 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Það er rétt hjá Maríu að það er ég Rúnar, sem skrifaði þennan pistil. Þó svo að við Maggi vinnufélagi minn séum ekki alltaf sammála í pólitíkinni, get ég þó verið sammála um að hækkun á lóðum á stór-Reykjavíkursvæðinu eigi stóran hlut í hækkun húsnæðisverðs. Það var gamli foringinn þinn Davíð Oddson, Magnús, sem reið á vaðið með útboði á lóðum í Stigahlíð. En eftir stendur að ekki stóð á bönkum að lána út á lóðir.

Hvað um það R-listanum eða bæjarstjórnum nágrannasveitafélaga bar ekki gæfu til að stöðva þessa þróun. Lóðabrask er því miður vaxandi atvinnugrein.

Rúnar Sveinbjörnsson, 14.1.2008 kl. 19:00

4 Smámynd: Magnús Jónsson

Rúnar: Stigahlíð átti að vera einangrað tilfelli eins og þú veist vel, en það er samt rétt hjá þér að það var Davíð sem gerði, einnig er það rétt hjá þér að allir í bæjarstjórnum nágranasveitafélagnanna dönsuðu með R-listanum, í þessum gjörning, en það er það furðulega samt að þó við séum ekki alltaf sammála, að þá er oftast nær sama útkoma úr því sem við viljum gera, hægri-vinstri, okkur deilir eiginlega aðeins á um leiðir að settu marki, það er að allir eigi að njóta þess ef vel gengur, og allir eiga að sjá um þá sem þurfa á hjálp að halda, enn græðgi hefur eyðilagt þessar hugsjónir svo oft að það er oft á tíðum erfitt að halda áttum stundum, við Rúnar höldum áfram að vera ósammála til að hafa eitthvað til að rífast um jafnvel þó við séum sammála.      

Magnús Jónsson, 18.1.2008 kl. 23:42

5 Smámynd: Rúnar Sveinbjörnsson

Maggi, að sjálfsögðu erum við í sama flokki. Við höfum þurft að streða fyrir fyrir hverri krónu upp á einsdæmi. Að vísu kjósum við ekki sama stjórnmálaflokk, en þegar á reynir erum við samherjar.

Lifi samstaðan. 

Rúnar Sveinbjörnsson, 22.1.2008 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband